Ein helsta áskorun menntakerfa samtímans er að vinna gegn aðgreiningu Í alþjóðavæddum heimi sem er í senn margbreytilegur og aðgreinandi. Hugtökin um skóla án aðgreiningar og borgaravitund hafa orðið sífellt mikilvægari innan menntunar og skólastarfs sem ein helsta leiðin til að tryggja aðgengi, lýðræðislega þátttöku og inngildingu meðal nemenda. Þetta á einnig við um ungmenni sem hafa flutt til eða flúið á framandi staði þar sem þau njóta ekki réttinda sem ríkisborgarar. Við áskorunum sem þessum verður ekki brugðist á fullnægjandi hátt nema með stefnumótunar- og rannsóknarsamstarfi þvert á landamæri. Þessi eigindlega tilviksrannsókn er samanburðarverkefni sem nær til höfuðborga Íslands, Noregs og Bretlands. Markmiðið er að skilja hugmyndir og sjónarmið ungra innflytjenda og flóttafólks sem stunda nám á unglingastigi grunnskóla og í framhaldsskólum; rannsaka ólíka vegferð þeirra og ferli í átt að inngildingu í skólakerfinu og virkri borgaravitund. Þetta er gert með því að a) staðsetja rannsóknina í skólum á höfuðborgarsvæðum þar sem hnattvæðingin og menningarlegur fjölbreytileiki hverrar þjóðar er hvað mest áberandi, b) með því að virkja nemendurna sjálfa til að taka þátt í rannsóknarferlinu í gegnum myndrænar námsaðferðir sem byggja á hugmyndum frá Paulo Freire, og c) með því að skoða félagsleg og kennslufræðileg áhrif sem kennarar þeirra, foreldrar og samnemendur hafa á sjálft ferlið.