Meginmarkmið verkefnisins er að auka þekkingu á ofbeldi í nánum samböndum (bæði gagnkynhneigðum og hinsegin samböndum) með því að skoða reynsluheim þeirra sem beita ofbeldi. Á Íslandi eru nær engar rannsóknir sem hafa beint sjónarhorni sínu að þeim sem beita maka sína ofbeldi og hvernig það tengist sýn á foreldrahlutverkið. Verkefnið mun hafa þrjú meginmarkmið: þekkingarfræðilegt, fræðilegt og hagnýtt. Áhrif verkefnisins eru bæði hagnýt (samfélagsleg) og þekkingarfræðileg / fræðileg. Niðurstöður verkefnisins verða nýttar til að útbúa stutt fræðsluefni á fjórum tungumálum sem eru allsráðandi á Íslandi: íslensku, ensku, tagalog og pólsku. Þetta verður hagnýti þátturinn í verkefninu. Ennfremur munum við skipuleggja fundi og stuttar vinnustofur með hagsmunaaðilum og stefnumótendum eftir að viðamikil skýrsla hefur verið skrifuð út frá helstu niðurstöðum verkefnisins. Þar verður útdráttur á áðurnefndum fjórum tungumálum.