IWEV verkefnið var 4 ára rannsóknarverkefni um reynslu innflytjendakvenna af ofbeldi í nánum samböndum og á vinnustöðum. Þetta verkefni er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og lagði áherslu á að rannsaka upplifun innflytjendakvenna með því að nota blandaðar aðferðir. Gögnum var safnað með spurningakönnun á níu algengustu tungumálum sem innflytjendakonur nota á Íslandi. Að auki voru tekin 35 viðtöl við konur og 20 viðtöl við hagsmunaaðila, svo sem starfsmenn þjónustu- og ríkisstofnana. Fyrstu niðurstöður benda til þess að þó að upplifun innflytjendakvenna sé svipuð og reynsla íslenskra kvenna, þá sé marktækur munur þar á. Innflytjendakonur eru líklegri til að verða fyrir stofnana- og kerfisbundnu ofbeldi vegna jaðarstöðu þeirra sem innflytjendur á Íslandi. Þó að stofnanir og þjónustuaðilar stefni að því að veita nægjanlega og viðeigandi aðstoð, eru ákveðin samtök enn ómeðvituð um afleiðingar þess hvernig menningarlegur misskilningur og skortur á dýpri skilningi á fordómum hefur áhrif á hvernig, hvenær og á hvaða hátt innflytjendakonur leita sér aðstoðar. Niðurstöður þessa verkefnis verða notaðar til að þróa verkfæri og námsefni fyrir þjónustuaðila til að bæta þjónustu við innflytjendakonur. Gögnin verða kynnt í nokkrum fræðitímaritum sem og í bók um ofbeldi á íslensku og ensku. Útdrættir verða gerðir á helstu tungumálum sem innflytjendur nota á Íslandi. Verkefnið leiddi af sér áframhaldandi doktorsverkefni um áhrif atvinnubundins ofbeldis sem innflytjendakonur upplifa innan háskólasamfélagsins.