Tjáskipti teljast til grundvallarmannréttinda. Erfiðleikar í tjáskiptum leikskólabarna geta haft neikvæð áhrif á síðari lestrartileinkun þeirra, námsframvindu, félagsfærni, líðan og tilfinningaþroska. Mikilvægt er að bera tímanlega kennsl á leikskólabörn sem eiga í erfiðleikum með að tjá sig til þess að unnt sé að veita þeim þann stuðning sem þau þarfnast og draga um leið úr þeim neikvæðu áhrifum sem slíkir erfiðleikar geta haft í för með sér. Eins og sakir standa eru ekki til áreiðanleg og réttmæt skimunartæki sem foreldrar eða leikskólakennarar geta nýtt til kanna málfærni barna á aldrinum þriggja ára, hvort sem um er að ræða börn sem eiga íslensku að móðurmáli eða þau sem hafa annað móðurmál en íslensku. LANIS skimunarlistinn fyrir frávikum í tal og málþroska hefur verið í þróun um nokkurt skeið og hafa forprófanir gefið til kynna að listinn er áreiðanlegur og réttmætur. Markmið verkefnisins er (a) að fullvinna LANIS með því að staðla og reikna út skimunarnákvæmi tækisins (b) hanna aðgengilega rafræna aðgengilega útgáfu fyrir foreldra og leikskólakennara (c) þýða og staðfæra hann á önnur tungumál en þegar er til pólsk og ensk útgáfa af LANIS (d) skoða hvað er einkennandi fyrir málfærni eintyngdra og fjöltyngdra barna á Íslandi (e) hanna heimasíðu fyrir foreldra og leikskólakennara með aðgengilegum upplýsingum um málörvun barna.