Íslenska æskulýðsrannsóknin (ÍÆ) er rannsókn sem Menntavísindastofnun innan Menntavísindasviðs Háskóla Íslands framkvæmir fyrir Mennta- og barnamálaráðuneytið á grundvelli 12 gr. æskulýðslaga nr. 70/2007.
Markmið verkefnisins er að safna gögnum um velferð og viðhorf barna og ungmenna og gera niðurstöður aðgengilegar til að styðja við stefnumótun aðila sem koma að þjónustu og umönnun barna og ungmenna. Grundvöllur verkefnisins liggur einnig í að skapa aðstæður til snemmbærs inngrips og stuðnings við börn og fjölskyldur þeirra og styðja við innleiðingu löggjafar um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021.
Menntavísindastofnun Háskóla Íslands er framkvæmdaraðili æskulýðsrannsóknarinnar sem verður frá og með skólaárinu 2021-2022 lögð fyrir á hverju ári í grunnskólum, annað hvert ár í framhaldsskólum (hefst 2023-2024) og fjórða hvert ár verður framkvæmd símakönnun meðal ungs fólks utan skóla. Stefna ÍÆ er að allur aðgangur að niðurstöðum verði gjaldfrjáls og gagnasafn eins opið og hægt er svo lengi sem nafnleynd þátttakenda er tryggð. Yfirlit yfir niðurstöður og gagnagrunn ÍÆ er hægt að nálgast í vefforriti.