Rannsóknarverkefnið snýr að sjálfbærri þróun kennara til að auka gæði náms í íslensku og raungreinum með aðstoð myndbandsupptöku í kennslustundum. Nýjasta þekking á gæðakennslu verður nýtt í starfstengdu faglegu námi þar sem náið samstarf verður á milli kennara og rannsakenda og myndað verður lærdómssamfélag kennara. Gögnum er safnað með myndbandsupptökum til að greina mögulegar umbætur í kennslu og með viðtölum við kennara. Eins eru spurningalistar lagðir fyrir nemendur til að greina breytingar á þátttöku, athygli og viðhorfum til kennslunnar. Rannsóknin er nátengd norrænu öndvegissetri um gæði í kennslu (QUINT) sem veitir faglegan og tæknilegan stuðning við rannsóknina og aðgang að mikilvægum gagnagrunnum. Rannsóknin er sjálfbær og ný þekking og hæfni kennaranna í þátttökuskólunum mun nýtast við áframhaldandi þróun kennsluaðferða.