Rúmlega þriðjungur nemanda í 2. bekk á Íslandi getur ekki lesið sér til gagns samkvæmt opinberumviðmiðum (Björgvinsson & Bentsdóttir, 2017) og ríflega fjórði hver nemandi fær sérkennslu vegnalestrarerfiðleika (Hagstofa Íslands, 2019). Undanfarin 20 ár hefur fjöldi nemenda með erlent móðurmál fimmfaldast. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að félagakennsla, svo sem með Kindergarten Peer-Assisted Learning Strategis (K-PALS) sé áhrifarík aðferð til að leggja sterkan grunn að lestrarfærni en vandaðra rannsókna er þörf á Íslandi. Þessari rannsókn er ætlað að kanna beitingu og reynslu 1. bekkjar kennara og nemenda af K-PALS og að meta áhrif aðferðanna á byrjandi lestrarfærni nemenda í 1.bekk svo og lestrarfærni og lesskilning sömu nemenda í 2. bekk. Reynsla og beiting á K-PALS verður metin með könnun (n~150) meðal kennara, beinum athugunum og viðtölum við kennara og nemendur. Slembuð samanburðarrannsókn (RCT) mun bera saman lestrarfærni tilraunahóps (1.bekkinga í 5 bekkjum kennt með K-PALS, n~90) og paraðs samanburðarhóps (1.bekkinga í 5 bekkjum kennt með öðrum aðferðum, n~90), fyrir og eftir íhlutun/K-PALS í 1.bekk og með eftirfylgdarmælingum (Læsi og Lesferli) í 2. bekk. Framkvæmd K-PALS verður metin og stutt við hana eftir þörfum. Gagnaúrvinnsla verður með ANCOVA og aðferðum grundaðrar kenningar. Áhrif KPALS á nemendur í áhættu fyrir lestrarerfiðleikum (6 slökustu í hverjum bekk og/eða þá með íslensku sem annað móðurmál) verða metin sérstaklega.