Kennsluleiðbeiningar með námsorðaforða: Innleiðing lista yfir íslenskan námsorðaforða og gæðatexta með námsorðaforða í læsismenntun grunnskólanema
Meginmarkmið verkefnisins er að þróa kennsluleiðbeiningar til að styðja grunnskólakennara við að innleiða námsorðaforða og gæðatexta í skólastarf sem ætlað er að efla læsisfærni nemenda. Verkefnið leggur til grundvallar: a) lista yfir íslenskan námsorðaforða, LÍNO-2; b) gæðatexta með orðum LÍNO-2; c) árangursríkar aðferðir við að nota námsorðaforða í skólastarfi. Þetta er samstarfsverkefni fjögurra stofnana: Menntavísindasviðs og Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, Árnastofnunar og Menntamálastofnunar.
Valdir verða kennarar nemenda í 4. 7. og 9. bekk grunnskóla, annars vegar tilraunarskólar og hins vegar samanburðarskólar. Verkefnið felur í sér eftirfarandi þrep: 1) Viðtöl við kennara um þann stuðning sem þeir telja sig þurfa við að vinna með námsorðaforða og textana í skólastarfi; 2) Forpróf með nemendum í tilraunar- og samanburðarskólum í lesskilningi og ritun; 3) Íhlutun: a) dagsnámskeið um árangursríka kennsluhætti með námsorðaforða; b) kennarar prófa efnið; c) ígrundunarfundur; d) kennarar prófa efnið áfram; e) samantekt á reynslu kennara. 3) Eftirpróf sömu og í forprófunum. 4) Kennsluleiðbeiningar prófaðar í skólum sem ekki tóku þátt í fyrri vinnu.
Áherslan er á það hvernig kennarar og nemendur þeirra nota íslensku í skólanum: Nemendur sem læra íslensku, nemendur sem læra um íslensku og nemendur sem læra á íslensku upp allan skólastigann.