Í þessari rannsókn er kenningum Bourdieus og lífssögurannsóknum beitt til þess að skoða hvernig menntun (sem menningarlegt auðmagn og lífssöguleg reynsla) getur mótað sjálfsmynd fólks og lífssögu þess í samspili við félagslega og efnahagslega stöðu þeirra. Gögnin í rannsókninni eru 23 lífssöguleg viðtöl við fólk sem fékk tækifæri til þess að fara aftur í nám í kjölfar atvinnuleysis. Þetta átak var samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins og ríkisins. Í viðtölunum var áhersla lögð á upplifun þátttakenda af framhaldsskólanámi sínu og skólasögur þeirra. Öflun gagna er lokið.
Næsta skref í rannsókninni er greining á viðtölunum en frumniðurstöður hennar gefa til kynna að þessi stuðningur hafi haft afdrifarík áhrif á þátttakendurna, sérstaklega lífsgæði þeirra og væntingar um framtíðina. Hann breytti einnig samskiptum þeirra við aðra og síðast en ekki síst væntingum annarra fjölskyldumeðlima til framtíðarinnar. Nýnæmi rannsóknarinnar er einkum það að hún gefur innsýn í skólasögu hóps sem ekki hefur verið rannsakaður fyrr á Íslandi.
Umfram allt sýna viðtölin hvernig lífssaga fullorðins fólks getur tekið jákvæðum breytingum þegar því er gefinn kostur á því að sækja sér menntun. Rannsóknin verður mikilvægt innlegg í mótun menntastefnu í framtíðinni.
Ingibjörg hlaut doktorsnemastyrk Rannís til þriggja ára.