Gagnrýni hefur komið fram á kennaramenntun fyrir skort á samhengi innan námsins og skort á tengslum milli námskeiða í kennaranámi og starfs á vettvangi. Alþjóðlegar rannsóknir á kennaramenntun benda til þess að lykilatriði í árangursríkum undirbúningi fyrir kennarastarfið séu tækifæri kennaranema til að æfa og læra aðferðir sem byggja á raunverulegu starfi kennara í skólastofu. Því leggja rannsakendur og stefnumótendur um allan heim í auknum mæli áherslu á að móta aðferðir í kennaramenntun sem brúa bilið milli fræða og starfs. Íslenska skólakerfið stendur frammi fyrir nokkrum brýnum áskorunum, bæði vegna kennaraskorts og vegna slakrar frammistöðu nemenda í alþjóðlegum könnunum og því er mikilvægt að huga að gæðum náms og kennslu. Þrátt fyrir umfangsmiklar breytingar á íslenskri kennaramenntun á síðustu tveimur áratugum hafa fáar rannsóknir verið gerðar á inntaki kennaranáms og undirbúningi kennaranema fyrir starfið. Það er því brýn þörf á rannsóknum á íslenskri kennaramenntun og lykilstoðum hennar sem undirbúa væntanlega kennara fyrir kennarastarfið. Tilgangur rannsóknarverkefnisins er að kanna með heilstæðum hætti inntak grunnskólakennaranáms á Íslandi. Verkefnið veitir mikilvæga sýn á undirbúning kennara á landsvísu sem og mótar og prófar aðferðir í kennaramenntun sem tengja saman fræði og starf með árangursríkum hætti.