Matvendni hjá börnum, sérstaklega þeim sem glíma við taugaþroskaraskanir á borð við ADHD og raskanir á einhverfurófi, er nýtt og vaxandi rannsóknarefni sem krefst þverfaglegrar nálgunar. Bragðlaukaþjálfun er unnin upp úr hugðarefni Önnu Sigríðar Ólafsdóttur prófessors í næringarfræði og teymis hennar. Aðaláhersla í þessu verkefni er á fæðuval, matvendni og líðan, bæði hjá börnum og foreldrum. Meginþungi rannsóknarinnar liggur í fjölbreytileika í fæðuvali, og þá sér í lagi að auka neyslu ávaxta- og grænmetis sem eru þær fæðutegundir sem helst skortir í mataræði barna almennt. Bragðlaukaþjálfun í þeirri mynd sem við fáumst við hana er nýjung á Íslandi.
Rannsóknir benda til þess að draga megi úr matvendni með bragðlaukaþjálfun. Þjálfunin felur í sér endurtekna kynningu á matvælum á tiltölulega skömmum tíma en mesta ákorunin er oft að fá börn til að smakka bragðmiklar fæðutegundir. Við höfum leikinn og gleðina að leiðarljósi og samvinnu barna og foreldra. Matvendni getur falið í sér að barn velur umfram annað mat sem er bragðdaufur eða sætur, en litur, áferð og annað skynáreiti getur líka ýtt undir einhæft fæðuval. Það krefst þolinmæði að venja börn á nýjar fæðutegundir og mikilvægt er að virkja fjölskylduna og nærumhverfið til að draga úr matvendni og stuðla að heilsusamlegu fæðuvali.