Rannsakendur við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Háskólann í Reykjavík standa að rannsókn á andlegri líðan og notkun fæðubótarefna meðal íþróttafólks í fremstu röð á Íslandi. Með niðurstöðum þessarar rannsóknar er hægt að kortleggja betur það andlega álag sem íþróttafólk í fremstu röð stendur frammi fyrir og hver notkun þeirra, þekking og viðhorf eru til fæðubótarefna, löglegra og ólöglegra.
Mikið andlegt álag fylgir því að helga líf sitt íþróttum og oftar en ekki er allra leiða leitað til að hámarka árangur, þar á meðal er notkun fæðubótarefna. Undanfarin ár hefur mikil aukning orðið á framboði fæðubótarefna og óljóst er með hvaða hætti fæðubótarefnanotkun afreksíþróttafólks er eða hvaðan íþróttafólk fær ráðleggingar um efnin og hvernig þau nýtast þeim sem best.
Markmið rannsóknar er að kanna andlega líðan íþróttafólks í fremstu röð á Íslandi sem og notkun þeirra, viðhorf og þekkingu á fæðubótarefnum. Jafnframt verða tengsl andlegrar líðanar og fæðubótanotkunar könnuð.
Vísindalegt gildi rannsóknarinnar og ávinningur felast fyrst og fremst í þeirri þekkingu sem fæst um andlega heilsu íþróttafólks, hvort hún sé verri eða betri en gengur og gerist meðal almennings, hversu algeng fæðubótanotkun sé og hvaðan íþróttafólk fær upplýsingar hvaða efni sé best að nota til að auka árangur. Með því að auka þekkingu á þessum þáttum er hægt að skipuleggja með markvissum hætti fræðslu og forvarnir íþróttafólki til heilla.
Fáar rannsóknir hafa verið framkvæmdar á Íslandi þar sem hugað er sérstaklega að andlegri líðan afreksíþróttafólks og notkun þeirra á fæðubótarefnum. Upplýsingarnar gefa dýrmæta vitneskju um hvaða fyrirbyggjandi aðgerða íþróttafélög, þjálfarar og aðstandendur íþróttafólks geta gripið til og hvernig er betur hægt að styðja við íþróttafólk í fremstu röð á Íslandi.
English title: Mental health and supplement use of elite athletes in Iceland