...

Aðferðir leiklistar í námi grunnskólabarna í ljósi fjölmenningar

Markmið rannsóknarinnar er að öðlast dýpri skilning á aðferðum leiklistar er varðar fjölmenningarkennslu í grunnskólum. Nálgun rannsóknar verður út frá þeirri hugsun að nota megi aðferðir leiklistar til að nálgast nám og kennslu fjölbreyttra nemendahópa þar sem unnið er út frá reynslu nemenda og þeir verða virkir þátttakendur.

Leiklist hvetur nemendur til að tjá, móta og miðla hugmyndum sínum og tilfinningum. Þar að auki reynir leiklist stöðugt á samvinnu, sambönd, sköpunargáfu, tungumál, tjáningu, gagnrýna hugsun og líkamlega virkni. Allt þetta er gert í gegnum leik og sköpunargáfu (Aðalnámskrá grunnskóla, 2013). Til að takast á við áskoranir nútímamenntunar þarf skólakerfið fjölbreytt verkfæri og úrræði til að koma til móts við nemendur. John O’Toole (2015) bendir á að leiklist sem listgrein í aðalnámskrá geti tekið á sig ýmsar birtingarmyndir og sé notuð í fjölbreyttum hlutverkum en einnig sem kennsluaðferð, leiklist getur verið öflugt tæki í tungumálakennslu, samfélagsfræðikennslu, lífsleikni, túlkun og tjáningu auk bókmenntakennslu o.fl. Anderson (2012) bendir á að leiklist sé einstakt tæki til að nota í kennslu þar sem það sameinar bæði líkamlega og andlega þekkingu og sköpunargáfu. Þar hafa kennarar öflugt tæki til að umbreyta nemendum og nútímavæða skólakerfið í takt við síbreytilegt samfélag. Rannveig Björk Þorkelsdóttir bendir ennfremur á að sérstöða leiklistar felist meðal annars í því að hún vinni jafnt með greind, sköpunargáfu og líkamlegt atgervi. Þannig getur leiklistin verið umbreytandi og styrkt félagslegan og tilfinningalegan þátt nemenda (Thorkelsdóttir, 2018).

Samfélög nútímans eru í stöðugri þróun og verða sífellt fjölbreyttari varðandi uppruna, menningu, trú og tungumál (Hanna Ragnarsdóttir, 2007b). Vegna aukinnar alþjóðavæðingar hefur hreyfanleiki fólks aukist mikið og því eru flest samfélög orðin fjölbreyttari en áður (Hanna Ragnarsdóttir og Hildur Blöndal, 2014). Líklegt er því að sérhver kennari kenni fjölbreyttum hópi nemenda með tilliti til uppruna, menningar og trúarbragða einhvern tíma í starfi sínu (Hanna Ragnarsdóttir, 2010).

Vísindalegur ávinningur þessarar rannsóknar er m.a. fólgin í því að efla listkennslu í skólakerfinu og stuðla að rannsóknum á sviði kennslufræða og lista. Þessi rannsókn mun fylla upp ákveðið tómarúm innan menntunar og auka skilning á því hvernig sjónarhorn, áhugi og reynsla kennara á framsetningu námsefnis með aðferðum leiklistar getur mótað nám nemenda í fjölmenningar- og samfélagslegu tilliti.

Rannsakendur
Jóna Guðrún Jónsdóttir
Tímabil rannsóknar
Frá: 1. janúar 2025
Styrktaraðilar

Seraphinite AcceleratorOptimized by Seraphinite Accelerator
Turns on site high speed to be attractive for people and search engines.