Markmið rannsóknarinnar er tvíþætt. Annars vegar að skoða starfsþróun þeirra leiklistarkennara sem hafa útskrifast sem leiklistarkennarar frá HÍ og hins vegar að fá betri innsýn í leiklistarkennslu á vettvangi. Það er mikilvægt að skoða þetta tvennt saman með uppbyggingu kennaramenntunar í huga.
_____________
Umskipti frá menntun, frá því að vera nemi yfir í atvinnulífið, er alltaf áskorun. Fyrir kennarastéttina virðist skrefið frá menntun til starfa jafnvel enn meira krefjandi en í öðrum starfsgreinum þar sem kennsla er í auknum mæli viðurkennd sem flókið og krefjandi starf. Kennarar upplifa meiri streitu og kulnun en aðrar starfsstéttir (Watt og Richardson, 2014; Watt, Richardson og Smith, 2017). Það er líka algeng reynsla nýliða í almennri kennslu að fyrsta árið í kennslu sé krefjandi og margir kennarar hætta störfum eftir fyrsta árið (sjá t.d. Leenders, De Jong og Van Tartwijk 2003; Smith o.fl. 2014; Watt og Richardson 2014; Välijärvi og Heikkinen 2012; Hildur Hauksdóttir, 2016; OECD, 2014).
Árið 2013 kom út ný aðalnámskrá grunnskóla á Íslandi. Þar var m.a. tilgreind skipting í greinasvið og leiklist skilgreind sem sérstakt fag í fyrsta skipti. Í kjölfarið myndaðist nokkur spenna í sambandi við það hvort skólarnir gætu kennt þetta nýja fag; hvort hæfir kennarar fengjust til starfa og hvort leiklistin næði góðri fótfestu. Ísland er í fararbroddi þegar kemur að listgreinum í grunnskóla. Það er eitt af örfáum löndum í Evrópu sem hefur leiklist sem grein í aðalnámskrá og aðrar þjóðir horfa til Íslands með hvernig til tekst við innleiðingu leiklistar sem kennslugreinar. Því er mikilvægt að hlúa að faginu (Rannveig Björk Þorkelsdóttir, 2021).
Vísindalegur ávinningur er m.a. fólginn í því að efla listkennslu í skólakerfinu og stuðla að rannsóknum á sviði kennslufræða og lista. Rannsakandi telur nauðsynlegt að skoða hvort og þá hvernig starfsþróun kennara fari fram og mikilvægt sé að styðja nýja kennara í starfi. Að koma inn í kennslu og hafa engan stuðning, eins og rannsóknir hafa sýnt fram á að gerist, getur leitt til þess að kennarinn hreinlega brennur út og hættir í starfi. Rannsókn sem þessi getur nýst öllum list- og verkgreinakennurum sem starfa í grunnskólum, þar sem list- og verkgreinakennarar eru í raun einyrkjar í sínu starfi. Þá getur rannsóknin einnig nýst háskólakennurum sem vilja efla samstarf við kennara á vettvangi með gæði í menntun kennara í huga.