...

Orðasafn yfir textíl og fatagerð

Markmiðið með rannsókninni er íslenskt orðasafn yfir textíl og fatagerð sem er yfirgripsmikið fræðasvið. Í orðasafninu er hvert orð þýtt yfir á ensku og hverju orði fylgja orðskýringar á íslensku, einnig fylgja teikningar og myndir. Með orðasafninu er sýnt fram á flókið ferli fatagerðar frá hugmynd að fullvinnslu og sögu fatnaðar með það að markmiði að varðveita, viðhalda og veita góða yfirsýn yfir þekkingar- og kunnáttusvið faggreinarinnar. Jafnframt er verið að ýta undir hugmyndaauðgi og nýsköpun í fatagerð og hönnun. Orðasafnið mun auka virðingu fyrir fatnaði og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og ábyrga neyslu, sem hvetur líka til aukinnar kunnáttu og þjálfunar í handverki þannig að efla megi endurnýtingu og endursköpun og koma í veg fyrir fatasóun. Orðasafnið verður gefið út af höfundi sem fræði-, fag- og námsbók fyrir kennara og nemendur á grunn-, framhalds- og háskólastigi. Íslenskt orðasafn og samræmd orðnotkun á íslensku og ensku mun nýtast sem mikilvæg undirstaða fyrir þróun menntunar í faggreininni.

Rannsóknin felur í sé að þýða íslensk fagorð yfir á ensku og semja ítarlegar en jafnframt hnitmiðaðar orðskýringar, að auki er töluvert um nýorðasmíði á íslensku. Við rannsóknarvinnuna hefur höfundur nýtt fyrri rannsóknir sínar, þekkingarbrunn og reynslu í fata- og híbýlahönnun og kennslu faggreinarinnar í fjörutíu ár á framhalds- og háskólastigi. Einnig hefur höfundur getað nýtt innihald eigin útgefinna fræði- og fagbóka um fatasaumstækni, fatahönnunar- og híbýlasögu, uppruna og sögu íslensku lopapeysunnar, sjálfbærni í textíl og þýddra fagbóka um sniðteikningu fyrir kven- og herrafatnað og handbók í textíl fyrir grunnskóla. Í rannsóknarferlinu hefur verið lögð áhersla á rannsóknarferðir á fjöldamörg erlend fata- og textílsöfn, auk rannsókna á innihaldi erlendra fag- og fræðibóka um fatnað og fatagerð.

 

Orðasafnið inniheldur um 3000 orð á íslensku og ensku og orðskýringar á íslensku.

Handrit í vinnslu inniheldur 240 blaðsíður, áætluð verklok eru á árinu 2026.

Rannsókn höfundar hefur hlotið styrki frá Hagþenki – félagi höfunda fræðirita og kennslugagna og tvisvar sinnum frá Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur.

Rannsakendur
Ásdís Jóelsdóttir
Tímabil rannsóknar
Frá: 31. janúar 2022
Til: 31. ágúst 2026
Styrktaraðilar


Seraphinite AcceleratorOptimized by Seraphinite Accelerator
Turns on site high speed to be attractive for people and search engines.