Á Íslandi, líkt og í mörgum öðrum vestrænum löndum, var samkynhneigð oft lýst sem erlendri ógn á 20. öld og henni var þannig haldið fyrir utan sjálfsmynd þjóðarinnar. Þjóðernisorðræða átti því þátt í að jaðarsetja samkynhneigða í samfélaginu. Nýleg rannsókn hefur þó sýnt að á 21. öld er Íslandi gjarnan lýst sem „hinsegin útópíu“. Þannig virðist sem hinsegin fólk, í það minnsta samkynhneigðir, hafi verið innlimaðir í þjóðina.
Þetta rannsóknarverkefni skoðar þessa þróun og samtvinnun hinsegin kynverunda og þjóðernis í opinberri orðræðu og bókmenntum á Íslandi á tímabilinu 1944–2010. Fræðilegur kenningarammi verkefnisins er hinsegin fræði og saga kynverundar, sérstaklega skrif Michels Foucault. Út frá þeirri nálgun eru birtingarmyndir hinsegin kynverunda skoðaðar, svo og hvernig þeim var stýrt, í opinberri orðræðu (blöðum, tímaritum, sjónvarpi og orðræðu stjórnmála og læknisfræði) og bókmenntum (skáldsögum, smásögum, ljóðum og leikritum).
Um leið kanna rannsakendur hvernig þessar birtingarmyndir tengjast þjóðernisorðræðu og hugmyndum um íslenskt þjóðerni. Einnig er byggt á fræðilegum skrifum um andóf, sjálfsverund og hinsegin gjörningshátt við greiningu á atbeina hinsegin fólks, viðnámsorðræðu og afstöðu hinsegin fólks og félagasamtaka til þjóðernisorðræðu. Verkefnið skoðar þannig hinsegin kynverund í sögu Íslands og íslenskum bókmenntum um leið og það setur viðfangsefni sitt í norður-evrópskt samhengi. Það er um leið greining á íslensku þjóðerni frá hinsegin sjónarhorni.