Markmið rannsóknarinnar er að afla þekkingar á því hvernig þrjú sveitarfélög hafa staðið að innleiðingu og framkvæmd laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Rannsóknin skoðar þrjá meginþætti: 1) hvernig stofnanir sveitarfélaga hafa lagað skipulag sitt að innleiðingu laganna 2) þverfaglega samvinnu fagfólks og smíði sameiginlegrar þekkingar milli ólíkra skólastiga og stofnana s.s. leik- og grunnskóla, frístundastarfs og velferðarstofnana og 3) áhrif innleiðingar farsældarlaganna á vellíðan barna og ungmenna. Rannsóknin er margþátta tilviksrannsókn sem fylgir blandaðri aðferðafræði til að tryggja fjölbreytileika gagna og áreiðanleika gagnasafnsins. Rannsakendur frá Háskóla Íslands og Menntamálastofnun leiða rannsóknina í samstarfi við þrjú sveitarfélög. Rannsóknarverkefnið mun taka tvö ár og byggist á þremur rannsóknarþáttum sem hafa innbyrðis tengsl. Þrjár tegundir gagna verða greindar með þriggja þátta nálgun til að kanna ferli innleiðingarinnar, til að dýpka þekkingu og fjölga sjónarhornum: 1) viðhorf þátttakenda 2) athuganir og 3) megindleg gögn. Gildi rannsóknar felst í því að greina árangursríka starfshætti í innleiðingu og framkvæmd laganna og öðlast skilning á þeim kröftum sem eru að verki þegar skóla-, frístunda- og velferðarstofnanir bregðast við löggjöf sem grundvallast á mikilvægi þverfaglegrar samvinnu. Rannsóknin mun skapa dýrmæta þekkingu fyrir stjórnvöld til að taka mið af fyrir innleiðingu nýrra laga í mennta- og velferðarkerfinu.